Í dag eru komnir sex mánuðir síðan ég seldi snjallsímann minn.

Líkt og með marga af minni kynslóð var staðan hjá mér orðin þannig að snjallsíminn stýrði mér en ekki öfugt. Eða eins og kemur fram í Fight Club: The things you ownend up owning you.

Að fara beint í að selja snjallsímann minn var reyndar (augljóslega) ekki plan A, B eða C. Mér fannst bara ekkert annað virka nógu vel svo ég ákvað að selja hann og kaupa mér samlokusíma í staðinn. Engar nánari reglur. Ekkert „hættur á Snapchat“ eða „kíkja einu sinni í viku“ eða neitt svoleiðis. Prófa þetta líf og ef þetta væri skelfilegt myndi ég einfaldlega kaupa mér snjallsíma aftur. Ekki flókið. Einfalt. Aðeins að kíkja út úr þægindahringnum.

Áður var ég nefnilega óborganlega fyndna týpan sem eyðir Snapchat úr símanum sínum eða slekkur á tilkynningum frá Facebook… í einn dag, fer svo nákvæmlega aftur í sama gamla farið og líður eins og hún hafi tekið skref fram á við.

Stundum þegar talið berst að þessari ákvörðun minni í samræðum við fólk segir það, sem mér finnst svo merkilegt: „Vá, ég þyrfti svo mikið á þessu að halda.“ Eins og maður þurfi að sækja um að fá að taka þessa ákvörðun og fá samþykki. Eða að maður vinni þessa ákvörðun í lottó. Mér finnst það svo magnað því þessar manneskjur hafa bara ákveðið að líf án snjallsíma sé ómögulegt eða ekki þeirra eigin ákvörðun. Við tökum ákvörðun um allt sem við gerum í lífinu.

Ég er samt ekki að skrifa þetta til að fá einhverja útrás fyrir eigin frábærleika og hugrekki og segja: „Sjáið mig, ég er betri en aðrir því ég seldi snjallsímann minn og allir aðrir eiga að gera það líka!“ Þvert á móti. Það gæti reyndar verið ágætis efni í annan pistil. Ef maður er sáttur með samband sitt og símans síns hvet ég að sjálfsögðu til að halda því þannig. Þú breytir ekki sigurformúlu.

En hvernig er þetta búið að vera í mínu tilfelli?

Ég hef án gríns saknað snjallsímans míns nákvæmlega þrisvar:

-Þegar ég var á leið í klippingu og fann ekki staðinn og þurfti að hringja í pabba og fá leiðsögn í staðinn fyrir að nota Google Maps (á meðan ég var að keyra, sem er ólöglegt og beinlínis stórhættulegt).

-Þegar ég var á leið til vinar míns en var ekki með númerið hans svo ég þurfti að hringja í annan vin min og fá númerið frá honum í staðinn fyrir að nota Já.is (á meðan ég var að keyra).

-Þegar mig langaði ótrúlega mikið að hlusta á Lion King á íslensku á Youtube þegar ég var á leiðinni í vinnuna um daginn (á meðan ég var að keyra). Í staðinn lét ég nægja að setja í tækið Aladdin geisladiskinn sem ég keypti á leiksýningunni í London síðasta sumar.

Ég hef sem sagt BARA saknað símans míns á meðan ég hef verið að keyra. Einu skiptin sem mig hefur langað að eiga snjallsíma hefur verið til að geta notað hann við stýri sem var eiginlega, og ég skammast mín fyrir að játa það, orðið að vana hjá mér. Mikið er það glötuð týpa.

Ég kíki af og til á Snapchat í símum systkina minna og kærustu (ekki vina samt, þeir leyfa mér það ekki því þeir virðast ekkert þrá heitar en að sjá mér „mistakast“ í þessari tilraun og átta mig á því að líf án snjallsíma sé ömurlegt líf). Stundum tvisvar á dag, stundum einu sinni í viku. Jafnvel sjaldnar, alltaf líður lengri tími á milli.

Í rauninni hef ég ekki misst af neinu. Ég hélt ég myndi missa af þvílíkt miklu og þyrfti bara að venjast því. En ég hef ekki einu sinni þurft að venjast því. Eina sem ég hef þurft að venjast upp á nýtt er að ýta fjórum sinnum á 7 til að skrifa “s” o.s.frv.

Önnur hagnýt atriði: Síðan ég seldi símann hef ég sparað mér 50 þúsund krónur og áætla að spara mér árlega 30 þúsund krónur vegna símaútgjalda. Ég reikna með að engu ykkar finnist það þess virði en eins og amma segir alltaf við mig: if it makes money it makes sense. Mér finnst ég ekki sofa betur eða finna neitt sérstakan mun til hins betra heldur nema dauði tíminn sem fór ALLUR í símann hefur farið í að líta aðeins í kringum sig og stundum fá skemmtilegar skapandi hugdettur.

Meira var það ekki í bili.